Innlent

Grundvallarreglur réttlátrar málsmeðferðar brotnar

Verjendur í Hæstarétti í gær.
Verjendur í Hæstarétti í gær. MYND/GVA

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sagði grundvallarreglur um réttláta málsmeðferð brotnar í Baugsmálinu og gagnrýndi settan saksóknara fyrir að skila gögnum í málinu seint. Sagði hann magn þeirra gagna sem saksóknari hefði lagt fram slíkt að Hæstiréttur hefði ekki tök á því að kynna sér þau til hlítar.

Seinni dagur málflutnings í Baugsmálinu hélt áfram klukkan átta í morgun. Í dag flytja verjendur þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenberger mál sitt og hefur þeim verið úthlutað samanlagt sex klukkustundum í Hæstarétti til þess.

Málsgögn um 50 þúsund síður

Gestur tók fyrstur til máls og fór og var aðalkrafa hans frávísun á ákæruliðum á hendur stjórnarformanni Baugs en sýkna til vara. Sagði hann grundvallarreglur um réttláta málsmeðferð brotnar og þá gagnrýndi hann að greinargerð setts saksóknara, Sigurðar Tómasar Magnússonar, í málinu hefði borist seint og sömuleiðis áfrýjunarstefna þótt hvort tveggja hefði verið dagsett á lokadegi frests.

Benti hann á umfang málsins og sagði erfitt fyrir Hæstarétt að kynna sér öll gögn málsins. Þau teldu 50 þúsund síður og þá væri framburður um hundrað vitna í málinu á yfir 1700 síðum. Gagnrýndi hann Sigurð Tómas fyrir að reyna að flytja mál sitt skriflega með því að leggja fram greinargerð í ellefu möppum í Hæstarétti. Engin leið væri fyrir dóminn að taka afstöðu til þessara gagna.

Verið að knýja fram sakfellingu hvað sem það kostar

Þá vitnaði Gestur til ákvæða í lögum um meðferð opinberra mála um hvernig standa beri að saksókn í opinberum málum og taldi langan veg frá að greinargerð saksóknara væri í samræmi við það. Sigurður Tómas hefði farið langt út fyrir öll mörk. Vildi hann meina að möppurnar ellefu sem saksóknari lagði fram væru í raun nýr grundvöllur saksóknar og í raun verið að reka nýtt mál fyrir Hæstarétti. ,,Hér er verið að knýja fram sakfellingu hvað sem hún kostar," sagði Gestur.

Þá gagnrýndi verjandinn Sigurð Tómas fyrir að hafa þulið í síbylju fullyrðingar um sekt Jóns Ásgeirs sem ekki ættu við rök að styðjast. Þá væri fullyrðing saksóknara í réttinum í gær um að fjölmörg skjallleg gögn sýndu fram á sekt ákærðu út í hött og eins sú sú krafa Sigurðar Tómasar að Hæstiréttur endurskoðaði í heild sönnunarmat héraðsdóm. „Nú spyr ég, hvern á að plata með þessum málflutningi," spurði Gestur.

Um fyrstu ákæruliðina, sem snúa að meintum ólögmætum lánveitingum Baugs til tengdra félaga, sagði Gestur að ekkert óeðlilegt hefði verið við lánaviðskiptin heldur væri þetta í samræmi við hlutafélagalög. Vitnaði Gestur til álits PricewaterhouseCoopers þar um. Þá sagði Gestur hugmyndir ákæruvaldsins um meint brot reikular og óskýrar.

Á eftir Gesti kemur Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, og þar á eftir flytur Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds Sullenberger, mál sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×