Innlent

Fyrrverandi miðborgarstjóri bar ábyrgð á fjárreiðum en núverandi ekki

MYND/Anton

Staða framkvæmdastjóra miðborgarmála er ekki að öllu leyti sambærileg við stöðu fyrrverandi miðborgarstjóra eins og borgarstjóri heldur fram. Fyrrverandi miðborgarstjóri bar til að mynda á fjárreiðum miðborgarmála en það gerir framkvæmdastjóri miðborgarinnar nú ekki samkvæmt starfslýsingu.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að ráða Jakob Frímann Magnússon í starf framkvæmdastjóra miðborgarmála. Bæði hefur verið gagnrýnt að staðan hafi ekki verið auglýst og hafa launakjör Jakobs verið gagnrýnd, en hann fær 710 þúsund krónur á mánuði fyrir starfið.

Borgarstjóri sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem fram kom að laun Jakobs séu sambærileg launum miðborgarstjóra R-listans, Kristínar Einarsdóttur, árið 2005 ef mið er tekið af launavísitölu. Þá kom fram í tilkynningu frá borgarstjóra í morgun að stöðurnar væru fyllilega sambærilegar.

Vísir hefur undir höndum starfslýsingar bæði fyrrverandi miðborgarstjóra og nýs framkvæmdastjóra miðborgarmála. Báðar kveða á um að miðborgarstjórarnir séu tengilliðir milli aðila í miðborginni og að þeim beri að vinna að úrlausnarefnum í miðborginni.

Í starfslýsingu fyrrverandi miðborgarstjóra kemur hins vegar fram að hann beri ábyrgð á fjárhagsramma og fjárreiðum miðborgarstjórnar sem starfaði á þeim tíma en gerir ekki lengur. Ekki er kveðið á um neina fjárhagslega ábyrgð núverandi miðborgarstjóra. Þá er starfslýsing fyrrverandi miðborgarstjóra öllu nákvæmari en lýsingin á þeim núverandi. Starfslýsingarnar eru báðar í viðhengjum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×