Innlent

Stúlka sló strák með flösku í fésið

Frá Héraðsdómi Reykjaness.
Frá Héraðsdómi Reykjaness.

Nítján ára stúlka var í Héraðsdómi Reykjaness í morgun sakfelld fyrir að slá pilt í andlitið með bjórflösku. Við höggið brotnaði flaskan og pilturinn skarst á nefi og efri vör. Sauma þurfti nítján spor í andlit piltsins en stúlkan var dæmd í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Stúlkan neitaði að hafa slegið piltinn vísvitandi, hún hefði borið fyrir sig hendi þegar hann reyndi að slá til hennar.

Aðdragandi árásarinnar var sá að pilturinn kom ásamt félögum sínum í samkvæmi sem haldið var í húsi við Vatnsendaveg í Kópavogi. Vinur stúlkunnar hefði lent í stimpingum við félaga piltsins en við það varð stúlkan „mjög æst og með móðursýki". Pilturinn bað stúlkuna um að skipta sér ekki af en þá hafi hún slegið hann í höfuðið með fyrrgreindum afleiðingum.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði stúlkan að pilturinn hefði sparkað í bringu vinar síns þar sem þau sátu í stól á bakvið hús. „Ákærða kvaðst hafa staðið upp og reynt að stoppa þetta og sagt við hann að hann sparki ekki í sitjandi mann. Þá hefði hann sagt við hana: „Þegiðu druslan þín." Hún hefði þá rifið flöskuna af honum og spurt hvað hann væri að gera með hana og hann svarað: „Þér kemur það ekki við, komdu með flöskuna druslan þín." Hann hafi svo kýlt í áttina til hennar, en hún sett hendina með flöskuna á móti til að verjast högginu. Við það hafi flaskan farið í andlitið á honum og brotnað og hann hefði dreift glerbrotunum yfir andlitið."

Héraðsdómi þóttu skýringar stúlkunnar ekki trúverðugar og var hún því sakfelld með fyrrgreindum afleiðingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×