Innlent

Davíð þyrfti að verða 202 sentímetra hár.

Lengja þyrfti Davíð Oddsson um 24 sentímetra ef hæð hans ætti að samsvara gengisvísitölu krónunnar í dag. Fyrir tveimur vikum jafngilti vísitalan hæð seðlabankastjórans í sentímetrum.

Flestum þótti nóg komið fyrir tveimur vikum og Davíð sló því upp í grín í viðtali við Stöð 2 þann 18. september og benti á að vísitalan væri þann daginn 178, sem væri sentimetratalan á sér. Hann sagði þá að krónan væri örugglega lægri heldur en hún yrði til jafnlengdar. Hún myndi rétta sig af.

Hið þveröfuga hefur gerst. Sentímetratalan á Davíð þyrfti að verða 202 til að samsvara gengisvísitölunni í dag. Ólíklegt verður að telja að hann fáist í lengingu og sennilega væri einfaldara að finna á hann skó með háum hælum, svona eins og 24 sentímetra háa skó. Svo við örkuðum af stað í búðir í dag að leita að hentugum skóm svo Davíð gæti náð upp í gengisvísitöluna. Engir nógu háir skór fundust.

Hugsanlega mætti safna saman bókum til að setja undir Davíð til að standa á en það þyrfti talsvert margar bækur til. Það er svo annað mál hvort hann fáist til að hoppa upp á bókastaflann.

Kannski væri einfaldast að auglýsa eftir nýjum seðlabankastjóra sem væri 202 sentímetrar á hæð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×