Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn verður að fara að girða sig í brók

Breki Logason skrifar
Dagur B Eggertsson segir afstöðu minnihlutans í málefnum REI skýra.
Dagur B Eggertsson segir afstöðu minnihlutans í málefnum REI skýra.

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn segir stefnu minnihlutans í málefnum REI vera skýra en bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn skipti um skoðun frá degi til dags. Hann segir upphlaupið sem er í kringum REI núna eiga rætur að rekja til innbyrðis átaka meirihlutans en komi verkefnum REI lítið við.

„Það sést best á því að það eru tveir mánuðir síðan allir flokkar í borgarstjórn komust að sameiginlegri niðurstöðu um að REI ætti að vera 100% í eigu Orkuveitunnar og ætti að vera í útrás en efna til samstarfs um einstök verkefni við einkaaðila, það er skoðun minnihlutans,“ segir Dagur og bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn sé með nýja stefnu frá degi til dags.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson oddviti Sjálfstæðismanna í borginni spurði hver afstaða minnihlutans væri í málefnum REI hér á Vísi fyrir stundu.

„Þetta stjórnleysi skaðar ekki bara Orkuveituna og REI heldur aðra íslendinga sem eru í orkuútrás erlendis. Þessi fíflagangur er fyrir löngu búinn að kasta rýrð á þennan meirihluta og ég leyfi mér að segja á stjórnmál í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn verður að fara að girða sig í brók og taka á sínum málum ef þetta á ekki að kosta borgarbúa meira en orðið er," segir Dagur sem undrast ummæli Vilhjálms.

„Það er í raun ótrúlegt að menn skuli vilja beina spjótum sínum eitthvað annað þegar þeir eru að stilla samstarfsaðilum sínum upp við vegg vegna innbyrðis átaka eins og þeir eru að gera núna gagnvart borgarstjóra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×