Innlent

Orkuveitan tryggir sér hagstætt lán

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í dag lánasamning við Evrópska fjárfestingabankann að fjárhæð 170 milljóna evra, jafnvirði rúmlega 25 milljarða króna, með 9,8 punkta álagi á millibankavexti í evrum. Lánið er til 20 ára.

Kjörin eru með þeim hagstæðustu sem íslenskum fyrirtækjum hafa boðist segir Orkuveitan og bætir við að lánið tryggi fjármögnun verkefna Orkuveitu Reykjavíkur vel fram á árið 2010. Þar á meðal er stækkun Hellisheiðarvirkjunar og bygging Hverahlíðarvirkjunar. Sterk staða fyrirtækisins og krafa um umhverfisvæna orkuframleiðslu á heimsvísu tryggi fyrirtækinu fjármögnun á þessum hagstæðu kjörum.

Þá segir í tilkynningu Orkuveiturnnar að fjármögnun fyrirtækisins hafi gengið vel þrátt fyrir þá óvissu sem ríki á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. „Traust eignastaða Orkuveitu Reykjavíkur, sterk markaðsstaða og hagstæð ímynd umhverfisvænnar orkuframleiðslu eru sterkir áhrifaþættir á þau kjör sem fyrirtækinu bjóðast. Samningurinn við Evrópska fjárfestingarbankann er um lán, sem hægt er að taka í fimm áföngum á næstu 18 mánuðum, eftir þörfum og öðrum aðstæðum," segir í tilkynningunni.

„Í því ástandi sem við, og raunar öll heimsbyggðin, býr við, er mikilvægt að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Við hjá Orkuveitu Reykjavíkur höfum vissulega fundið fyrir hinni alþjóðlegu óvissu og því er mikilvægt að okkur bjóðast áfram þau hagstæðu kjör, sem við höfum notið hingað til," segir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×