Sport

Jakob Jóhann í 47. sæti - Norðmaður setti Ólympíumet

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob Jóhann Sveinsson í lauginni í Peking í dag.
Jakob Jóhann Sveinsson í lauginni í Peking í dag. Mynd/Vilhelm

Jakob Jóhann Sveinsson náði ekki að bæta Íslandsmet sitt í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Peking.

Hann synti á þriðju braut í fjórða riðli og átti mjög öfluga byrjun. Hann var í öðru sæti eftir snúninginn á 29,22 sekúndum en náði ekki að fylgja því eftir. Hann synti á 1:02,50 mínútum sem er rúmri hálfri sekúndu frá Íslandsmeti hans.

Hann varð í sjöunda sæti í sínum riðli af sjö keppendum og alls í 47. sæti af 63 keppendum.

Jakob Jóhann var tæpum tveimur sekúndum frá því að komast í undanúrslitin en síðasti maður inn synti á 1:00,71 mínútu.

Norðmaðurinn Alexandre Dale Oen gerði sér lítið fyrir og setti Ólympíu- og Evrópumet í greininni er hann kom fyrstur í mark í sjöunda riðlinum. Hann synti á 59,41 sekúndum og bætti Ólympíumet Bandaríkjamannsins Brendan Hansen um 0,6 sekúndur.

Hansen synti svo í síðasta riðlinum en hann á heimsmetið í greininni, 59,13 sekúndur. Sundið var hins vegar nokkuð hægt og kom Hansen í mark á rúmri mínútu. Hann varð í tíunda sæti en efstu sextán komust í undanúrslitin.

Ólympíumeistarinn frá því í Aþenu, Kosuke Kitajima, náði næstbestum tíma og synti á 59,52 sekúndum.







Vilhelm Gunnarsson
Vilhelm Gunnarsson
Vilhelm Gunnarsson
Vilhelm Gunnarsson
Vilhelm Gunnarsson
Vilhelm Gunnarsson
Vilhelm Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×