Innlent

Mamma Ellu Dísar: Rosalega ánægð með allan stuðninginn

Ella Dís Laurenz.
Ella Dís Laurenz.

Ragna Erlendsdóttir, móðir Ellu Dísar Laurenz, segist rosalega ánægð með allan þann stuðning sem þær mæðgur hafi fengið í veikindum litlu stelpunnar.

Ella Dís er tveggja og hálfs árs gömul stelpa. Fyrir um það bil ári síðan fór líkami hennar að hrörna og hefur hún nánast þurft að vera undir stöðugu eftirliti lækna vegna þess. Enn er ekki ljóst hvað orsakar veikindi hennar og Ragna, móðir hennar, hefur því þurft að leita frekari lækninga fyrir hana erlendis með tilheyrandi kostnaði sem nemur milljónum króna.

Þröstur Karelsson, sölustjóri Bílamarkaðsins, færði móður Ellu Dísar 100 þúsund krónur í dag og skoraði um leið á allar bílasölur og jafnvel líka bílafjármögnunarfyrirtæki að styrkja Ellu Dís. Ragna segist hafa verið hjá Ellu Dís á spítalanum í allan dag og viti því ekki hvort einhver hafi orðið við áskorun Þrastar. „En söfnunin gengur vel og ég er alveg rosalega ánægð með þetta allt saman," segir Ella Dís.

Ragna segir að nú sé verið að venja Ellu Dís af því að fara úr rúminu og í stól. Einnig sé verið að hjálpa henni að anda án stuðnings öndunarvélar. Það gangi mjög vel og hún sé mjög sterk. „Ég vona bara að það haldi áfram og ekkert komi fyrir", segir Ragna. Hún segir að Ella Dís sýni mikinn styrk í öllu ferlinu. „Hún situr bara sælleg og horfir á Stubbana sína," segir Ragna, en uppáhalds sjónvarpsefnið hennar er Stubbarnir og Skoppa og Skrítla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×