Erlent

Rússar fjölga í herliði við landamæri Georgíu og Úkraínu

Rússar munu fjölga í herliði sínu við landamærin að Georgíu og Úkraínu ef löndin fá inngöngu í Atlantshafsbandalagið. NATO hefur heitið því að löndin fái inngöngu en hvenær er óráðið.

Heitasta deilumálið á leiðtogafundi NATO í Búkarest í Rúmeníu í síðustu viku var hvort samþykkja ætti aðildarferli Georgíu og Úkraínu að bandalaginu. Rússar eru harðlega andvígir stækku Atlantshafsbandalagsins í austur og hafa mótmælt mögulegri aðild ríkjanna tveggja af miklum krafti. Telja þeir inngöngu þeirra ógna öryggi sínu.

Niðurstaðan á leiðtogafundinum var sú að ríkin væru ekki tilbúin og utanríkisráðherrum bandalagsríkjanna falið að meta stöðuna á fundi sínum í desember. Tekið var fram í lokaplaggi leiðtogafundarins að Georgía og Úkraína fengju aðild að bandalaginu en ekki tiltekið hvenær það yrði.

Rússneskir fréttamiðlar hafa fjallað um málið. Haft er eftir Júrí Balújevsky, herforingja og yfirmanni rússneska herráðsins, að Rússar grípi til aðgerða fái löndin inngöngu í NATO. Þá verði fjölgað í herliði Rússa við landamærin að ríkjunum. Gripið yrði til ráðstafana sem hann vildi ekki skilgreina. Herforinginn bætti því að það yrði ekki einvörðungu á hernaðarsviðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×