Erlent

Dómur yfir fyrrverandi ráðherra í Rússlandi mildaður

Borgardómstóll í Moskvu mildaði í dag dóm yfir Jevgení Adamov, fyrrverandi kjarnorkumálaráðherra landsins, og þarf hann því ekki að dúsa í fangelsi.

Adamov var fyrr á árinu dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir stórfelld fjársvik í opinberu starfi en samkvæmt ákæru olli hann yfir 70 milljarða tjóni í rússnesku efnahagslífi með brotum sínum. Eftir að lögfræðingar Adamovs áfrýjuðu málinu komst dómstóll að því í dag að hann skyldi einungis fá skilorðsbundinn dóm og losnar hann úr haldi á næstu dögum að sögn lögmannanna. Þeir greindu ekki frá forsendum dómsins.

Adamov hefur einnig verið ákærður í Bandaríkjunum fyrir að misfara með yfir 600 milljónir sem embætti hans fékk í aðstoð til þess að auka öryggi kjarnakljúfa í Rússlandi. Ákæran hljóðar meðal annars upp á peningaþvætti og skattsvik. Adamov var handtekinn í Sviss árið 2005 þegar hann var að heimsækja dóttur sína og deildu Rússar og Bandaríkjamenn um það hvert framselja ætti ráðherrann fyrrverandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×