Innlent

Segja flugumferðarstjóra ekki vinna mikla yfirvinnu

MYND/Heiða

Flugstoðir ohf. hafna þeim fullyrðingum formanns Félags íslenskra flugumferðarstjóra að vinna þeirra sé keyrð á yfirvinnu.

Eins og fram hefur komið hafa flugumferðarstjórar boðað til 20 vinnustöðvana frá og með föstudeginum og vilja með því knýja á um nýjan kjarasamning.

Í tilkynningu Flugstoða í dag kemur fram að haft hafi verið eftir Lofti Jóhannssyni, formanni Félags íslenskra flugumferðastjóra, í fréttum í gær að vinna flugumferðastjóra sé keyrð á yfirvinnu.

Þetta sé ekki rétt því hver flugumferðastjóri hafi unnið að meðaltali um eina klukkustund á dag í yfirvinnu árið 2007. „Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík er stærsti vinnustaður íslenskra flugumferðastjóra og þar var yfirvinnan minnst á síðasta ári, eða að meðaltali 17 stundir á mánuði hjá hverjum flugumferðastjóra. Í flugturninum í Reykjavík var meðalfjöldi yfirvinnustunda 24 á mánuði, 16 á Akureyrarflugvelli og 20 í flugturninum í Vestmannaeyjum. Vinnuskylda flugumferðastjóra er 38 stundir á viku og heildarlaun fluguferðastjóra eru að meðaltali 809.000 krónur á mánuði," segir í tilkynningu Flugstoða.

Þá benda Flugstoðir á að mest þörf sé fyrir yfirvinnu yfir sumarmánuðina þegar flugumferð sé mest. Á sama tíma eigi flugumferðastjórar rétt á fjögurra vikna sumarleyfi. „Að auki fá þeir fjögurra vikna leyfi yfir vetrartímann sem einnig þarf að manna. Framangreindar tölur um yfirvinnu geta varla talist háar á íslenskan mælikvarða enda hafa lítil vandkvæði verið á því að fá flugumferðastjóra til að taka að sér þessa aukavinnu, segir í tilkynningu Flugstoða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×