Innlent

Ofsaakstur undir áhrifum

Um kl. 13 í dag ætluðu lögreglumenn frá Akranesi að stöðva bifreið til að kanna með ástand ökumanns. Þeir voru þá staddir við Hvalfjarðargöng og sá sem stöðva átti ók áleiðis til Reykjavíkur. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á Akranesi. Enn fremur segir:

„Hann sneri bifreið sinni við er hann varð lögreglunnar var og ók í átt til Akraness á miklum hraða. Bifreiðinni var veitt eftirför og náðist hraðamæling í eftirförinni þar sem ekið var með 180 km hraða.

Önnur lögreglubifreið frá Akranesi kom þegar til aðstoðar auk þess sem bifreið úr Borgarnesi og bifhjól úr höfuðborginni voru örskammt undan og tóku þátt í að reyna að stöðva akstur bifreiðarinnar.

Þegar sýnt var að ekki næðist að stöðva för bifreiðarinnar áður en hún kæmist inn á Akranes drógu lögreglumenn úr ökuhraða en sáu hvar bifreiðinni var ekið inn í bæinn og beygt til norðurs Esjubraut. Bifreiðin fannst svo mannlaus við Ægisbraut örskömmu síðar. Til ökumannsins sást í sjónhendingu við hús sem hann var talinn búa í og var ráðist til inngöngu í húsið eftir nokkra stund og fóru sérsveitarmenn sem komnir voru á vettvang inn í húsið á undan almennum lögreglumönnum.

Var það gert í öryggisskyni en umræddur maður hefur að undanförnu verið í brotastarfsemi og iðulega verið vopnaður við handtökur. Hann reyndist hins vegar ekki vera í húsnæðinu og var hafin leit að honum í bænum. Bar sú leit árangur og var maðurinn handtekinn um kl 14:30.

Tíu grömm af fíkniefnum fundust í vegkantinum skammt frá staðnum sem bifreiðin fannst og leikur grunur á því að maðurinn hafi kastað þeim út úr bifreiðinni. Hann gistir nú fangageymslur.

Maðurinn er til viðbótar við framangreint grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×