Innlent

Gerólíkar skýringar á evrustuðningi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir hafnar skýringum stöllu sinnar.
Katrín Júlíusdóttir hafnar skýringum stöllu sinnar.
Niðurstaða úr skoðanakönnun á stuðningi við upptöku evru og Evrópusambandsaðild kemur Katrínu Jakobsdóttur, þingmanni VG, ekki á óvart.

Samtök Iðnaðarins skýrðu frá niðurstöðum könnunar sem Capacent gerði á stuðningi við Evrópusambandsaðild og upptöku evru. Af þeim sem svöruðu í könnuninni vildu tveir af hverjum þremur kasta krónunni fyrir evru. Um 55% svarenda sögðust fylgjandi því að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og hefur fylgjendum fjölgað um 5% frá síðustu könnun.

Katrín segir að þessi stuðningur sé helst til kominn vegna þess efnahagsástands sem nú ríki. „Fólk sér þarna kannski mögulega lausn og finnst stjórnvöld ekki vera að koma með lausnir," segir Katrín. Hún segist þó sjálf ekki vera hlynnt aðild að Evrópusambandinu. „Nei, ég tel að við höfum enn tækifæri til að finna sjálfstæða lausn á málum. En það kallar auðvitað á talsverða vinnu af hálfu stjórnvalda," segir Katrín.

Yfirlýsing um aðildarviðræður myndi auka trúverðugleika

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þessi stuðningur sé ekkert sem komi á óvart. „Þó að ástandið í efnahagsmálum sé mjög ýkt núna er það staðreynd að krónan hefur verið að þvælast fyrir heimilum og jafnframt litlum og meðalstórum fyrirtækjum um áraskeið," segir Katrín Júlíusdóttir. Hún hafnar alfarið skýringum Katrínar Jakobsdóttur á því að ástæðuna fyrir stuðningsins sé að rekja til aðgerðarleysis stjórnvalda. „Það er ekkert nýtt að mikill stuðningur mælist við evruna og aðild að Evrópusambandinu," segir Katrín Júlíusdóttir.

Katrín Júlíusdóttir segir að þó að aðild að Evrópusambandinu sé spurning um lífskjaramál til framtíðar þá myndi yfirlýsing um að farið yrði í aðildarviðræður jafnframt auka trúverðugleika á efnahagslífinu til skamms tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×