Innlent

Nýtt ferjutilboð Eyjamanna í kjölfar viðræðna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Elliði Vignisson bæjarstjóri.
Elliði Vignisson bæjarstjóri.

„Þetta mjatlast. Við funduðum í gær uppi í Ríkiskaupum og þar óskuðu Ríkiskaup eftir formlegu tilboði," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, inntur eftir stöðunni í ferjumálinu svokallaða, þ.e. samningaviðræðum milli ríkisins og Vestmannaeyja um smíði og rekstur nýrrar ferju er annist siglingar milli lands og Eyja.

Vestmannaeyingar lögðu fram sex tilboð, er miðuðust við ýmsar ólíkar forsendur, þegar útboð fór fram fyrr í vor. Viðræður hafa nú farið fram um tilboðin og kostnaðaráætlun ríkisins en ýmsar nýjar forsendur komið fram. Í ljósi þeirra viðræðna segir Elliði ríkið óska eftir nýju tilboði er grundvallast á því sem rætt hefur verið. Hafa Vestmannaeyingar frest til 13. maí til að leggja þetta nýja tilboð fram.

„Ýmis kostnaður hefur aukist frá því að verkefnið hófst, sérstaklega fjármagnskostnaður og olíukostnaður sem er ráðandi rekstrarkostnaður við ríkið. Það er því fyrirsjáanlegt að kostnaðaráætlun stenst ekki en svigrúm er innan tilboðs okkar til að gera breytingar," sagði Elliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×