Innlent

Samskipti ríkisstjórnar og Seðlabankans í föstum skorðum

MYND/Geir
Samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans eru í föstum skorðum og hafa verið þéttari og meiri að undanförnu vegna ástands á fjármálamörkuðum sagði forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar sakaði hann formann Vinstri - grænna um að leggja fram fyrirspurn í kjaftasögustíl.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, lagði fram fyrirspurn um samskipti ríkisstjónarinnar og Seðlabankans á Alþingi í dag. Sagði hann ráðherra hafa látið falla orð um Seðlabankann sem að hans mati væru ekki heppileg. Þannig hefði forsætisráðherra sagt um vaxtahækkun Seðlabankans fyrir áramót að hún væri óheppileg og þá hefði utanríkisráðherra opinberað miklar efasemdir um að tæki Seðlabankans virkuðu. Nú væri svo komið í efnahagslífinu að menn hefðu ekki efni á því að ekki væri gengið í takt. Vildi hann fá að vita hvort samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans væru stirð en orðasveimur hefði verið um slíkt.

Steingrímur spurði annars vegar ítarlega út í fundi fulltrúa ríkisstjórnarinnar með Seðlabankanum á undanförnum mánuðum og hins vegar hvort rétt væri að ríkisstjórnin hefði fyrir nokkrum mánuðum hafnað eða ekkert gert með beiðni frá Seðlabankanum um að auka gjaldeyrisvaraforðann.

Fyrirspurn byggist á kjaftasögu

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði fyrirspurnina koma á óvart enda byggðist hún á orðasveimi eða kjaftasögu. Geir sagði samskipti aðilanna í föstum skorðum og með eðlilegum hætti. Fundir væru haldnir með formlegum hætti en vegna aðstæðna að undanförnu hefði samstarf ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans verið enn meira og þéttara en áður. Síðasti fundur um málin hefði verið í morgun.

Um síðari spurninguna sagði Geir að hún væri í kjaftasögustíl og það væri hrein fjarstæða að ríkisstjórnin hefði hafnað beiðni Seðlabankans um að auka gjaldeyrisvaraforðann. Bæði ríkisstjórn og Seðlabankinn væru á fullu að vinna í því máli.

Ráðherra hafi hemil á eigin liðsmönnum

Steingrímur sagði enga ástæðu fyrir Geir að taka fyrirspurninni á annan hátt en vel. Það væri gott að samskipti þessara aðila væru meiri um þessar mundir. Hins vegar væri umhugsunarefni fyrir forsætisráðherra að hafa heimil á eigin liðsmönnum í ríkisstjórninni sem töluðu út og suður. Þá væri það mat hans að samskipti Seðlabankans og stjórnvalda ættu ekki að vera neitt leyndarmál.

Forsætisráðherra svaraði því til að fyrirspurn Steingríms væri tilefnislaus og bankinn og ríkisstjórnin væru að vinna sína vinnu. Ekki væri hægt að tala um það mikið úr ræðustól Alþingis hvernig vinna við gjaldeyrisforðamál stæði. Lánskjör hefðu batnað og það væri nú hægt að spara mikla peninga í lántöku miðað við fyrir nokkrum vikum. Sagði hann við formann Vinstri - grænna að það þýddi ekki að koma og tala út í loftið þegar menn hefðu engin tök á því sem þeir væru að tala um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×