Innlent

Fjölmargar heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi sameinaðar

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra. MYND/Anton

Til stendur að sameina heilbrigðisstofnanirnar í Ólafsvík, á Grundarfirði, í Borgarnesi, Búðardal, á Reykhólum og í Stykkishólmi undir eina stofnun. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingflokksformanns Frjálslynda flokksins.

Kristinn spurði hvaða heilbrigðisstofnanir væri ráðgert að sameina á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi og vísaði hann til tilkynningar heilbrigðisráðuneytisins um áform þessa efnis.

Í svari ráðherra kom enn fremur fram að til stæði að sameina heilbrigðisstofnanir á Ísafirði og Bolungarvík á Vestfjörðum og á Norðurlandi ætti að sameina heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi og Sauðárkróki annars vegar og Dalvík, Siglufirði og Ólafsfirði hins vegar. Sameiningarnar verða um næstu áramót.

Ráðherra benti á að með sameiningunni fengju stofanirnar meira bolmagn og gætu tekist á við stærri verkefni. Markmiðið væri að efla og styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðunum en ekki veikja.

Kristinn og tveir þingmenn Vinstri - grænna gagnrýndu samráðsleysi í málinu en ráðherra hafnaði því. Sagði hann ekki hægt en að vinna að svona málum nema með þeim sem að þeim kæmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×