Innlent

Sektaður fyrir að reykspóla á bensínstöð

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann til þess að greiða eitt hundrað þúsund krónur í sekt og svipti hann ökuréttindum í tvo mánuði fyrir að reykspóla í tvígang á bílaplani bensínstöðvar í september í fyrra.

Samkvæmt ákæru var manninum gefið að sök að hafa ekið bíl sínum án nægilegrar aðgæslu og varúðar um bifreiðaplan við N1 á Selfossi, reykspólandi á hættulegan og gálausan hátt í kringum bensíndælur á planinu þannig að reykur og ískur stafaði af athæfi ákærða og næturró var raskað.

Maðurinn viðurkenndi annað brot sitt en bar því við að í seinna skiptið hefði hann verið staddur á Stokkseyri og félagar hans hefðu fengið bílinn að láni. Út frá framburði vitna og myndum úr eftirlitsmyndavél var hann hins vegar sakfelldur fyrir síðara brotið líka.

Með vísan til þeirrar hættu sem skapaðist við það framferði mannsins að reykspóla á milli bensíndæla taldi dómurinn rétt að ákærði yrði sviptur ökurétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×