Innlent

Flogið til útlanda fyrir fáeina þúsundkalla

Íslendingar eiga að geta komist til meginlands Evrópu á fáeina þúsundkalla í sumar. Þýskt lággjaldaflugfélag ætlar í sumar að selja flug frá Keflavík til Kölnar á lægra verði en Íslendingar eiga að venjast.

DV segir frá því í dag að þýska lággjaldaflugfélagið German Wings hyggist í júní hefja flug frá Keflavík til Kölnar í Þýskalandi á 2200 krónur aðra leið með öllum gjöldum inniföldum.

Fréttastofa Stöðvar 2 kannaði verð á heimasíðu þýska félagsins og valdi dagsetningu af handahófi, 5. júní. Í ljós kom að fargjaldið aðra leiðina var 2500 krónur tæpar. Þar var raunar ekki öll sagan sögð því skattar og gjöld eru rúmar fjögur þúsund krónur. Ódýrasta fargjald til baka um viku síðar, var á tæpar 4000 þúsund krónur og við það bættust rúmar tvö þúsund krónur í skatta og gjöld.

Niðurstaðan er því að fram og til baka kostar flugið 12.782 krónur eða rúmar sex þúsund krónur hvora leið. Það er allfjarri þeim tvö þúsund krónum sem flugfélagið fullyrðir í DV í dag en engu að síður mun ódýrara en Íslendingar eiga að venjast þegar þeir þurfa að skreppa til meginlands Evrópu.

Að sögn talsmanns félagsins er fyrsta flugið 4. júní og verður flogið tvisvar í viku í sumar. Um 10-15 prósent sæta verði á rúmar 2200 krónur með öllum gjöldum. Ekki virðist mikið eftir af þeim sætum því eftir allnokkra leit á síðunni fannst ekkert fargjald á því verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×