Innlent

Skutu flugeldum að lögreglu á Akureyri

Mikil ölvun og ólæti voru í miðbæ Akureyrar í nótt og eru fangageymslur lögreglunnar fullar. Mikið fjölmenni er í bænum í tengslum við Bíladaga. Lögregla furðar sig á grófri og ruddalegri framkomu fólks í sinn garð og var dósum og flöskum meðal annars kastað í átt að lögreglu. Þá var flugeldum skotið á lögreglu á Ráðhústorginu.

Segir lögreglan að skemmtanahald næturinnar hafi farið út í tóma vitleysu. Mikið var um slagsmál en ekki er vitað til að alvarleg meiðsl hafi hlotist af, en einn maður var fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Talsvert var um minniháttar skemmdarverk. Rúður voru brotnar á þremur stöðum og bíll skemmdist þegar hent var í hann flösku.

Á þriðja tímanum í nótt var skoteldatertu skotið lárétt yfir Ráðhústorg og beint að lögreglumönnum og öðrum sem þar voru. Mildi var að enginn slasaðist og óskar lögreglan eftir upplýsingum um þá sem þarna voru að verki. Þá virtist sem fleiri skoteldar væru í umferð og tók lögreglan m.a. rakettu af einum manni.

Nokkru síðar var gerður aðsúgur að lögreglumönnum sem voru að handtaka mann og reynt að hindra handtökuna. Komu aðrir lögreglumenn til aðstoðar og þurftu þeir að beita bæði kylfum og varnarúða. Átta voru handteknir og settir í fangageymslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×