Innlent

Færri bílar og minni matur en meira freyðivín

Þjóðin kaupir æ færri nýja bíla, minna af mat og er farin að velta stærri hluta neyslunnar yfir á kreditkortið. Freyðivínið flæðir þó stríðari straumum en á sama tíma í fyrra og áfengissala eykst.

Orðið kreppa fór að heyrast æ oftar eftir því sem leið á veturinn. Þegar fréttastofa lagðist í rannsóknir á því hvort hennar gætti í neyslu landsmanna í mars, var fátt sem benti til þess að lausafjárkreppan væri farin að bíta. Síðan hefur margt breyst. Í gær sögðum við frá því að vanskil hefðu aukist hjá fjármögnunarfyrirtækjum og að vörubílstjórar væru farnir að selja bíla sína úr landi.

Í dag skoðuðum við hversu margir eru að kaupa sér nýja bíla. Þeim hefur snarfækkað. Mánuðina mars til maí í fyrra voru rösklega 4200 nýir fólksbílar skráðir á Íslandi. Á sama tíma á þessu ári voru þeir 2683. Kaup á nýjum fólksbílum hafa því dregist saman um 37%.

Við erum líka að kaupa minna af mat. Verslun með dagvöru - sem er matur og aðrar vörur sem fást í hefðbundnum stórmörkuðum - hefur dregist saman síðustu tvo mánuði, er 3,6% minni í maí en í apríl.

Og svo er það kortaveltan. Til að nota debetkort þarf að eiga lausafé - og það er af skornum skammti þessa dagana. Enda dróst notkun debetkorta saman um átta prósent í mars og apríl - miðað við sama tíma í fyrra.

Þess í stað hefur fólk í ríkari mæli fjármagnað sig á kreditkortinu - því þar jókst veltan um 15% í mars og apríl miðað við sama tíma í fyrra.

Í samdrættinum fer þó fjarri að menn spari við sig sopann. Rösklega 240 þúsund fleiri lítrar af áfengi voru seldir á krepputímabilinu mars til maí á þessu ári - en í góðærinu í fyrra. Salan jókst því um 5%. Á sama tíma jókst salan á freyðivíni um tæpa þrjú þúsund lítra, eða 11,6%, svo veisluglaumurinn er hreint ekki horfinn úr lífi landsmanna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×