Innlent

Lítið sést af hrefnu í hvalaskoðun á Faxaflóa að undanförnu

MYND/Valgarður

Lítið sem ekkert hefur sést af hrefnu á Faxaflóa síðustu þrjár vikurnar og er það mjög alvarleg staða fyrir hvalaskoðunina, sem er ein allra mikilvægasta afþreying í ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Þar er enn fremur bent á að rúmlega 100 þúsund ferðamenn hafi farið í hvalaskoðun á síðasta ári, þar af um helmingur frá Reykjavík. Segja samtökin að samt sé verið að veiða hrefnu á sama svæði og tekist hafi að veiða 5 hrefnur síðan heimild var gefin til veiða fyrir einum mánuði.

Skora samtökin á ríkisstjórnina að stöðva veiðar nú þegar áður en fullur skaði hljótist af „en samkvæmt skýrslu frá Hafrannsóknarstofnun er hrefnustofninn á landgrunnssvæðinu nú aðeins fjórðungur af því sem áður var talið," segir í tilkynningunni. „Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort skynsamlegra sé að sýna þessar fáu hrefnur sem eru á Faxaflóa eða skjóta þær."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×