Innlent

Landsvirkjun gagnrýnir fund um Urriðafossvirkjun

Urriðafoss.
Urriðafoss.

Svo virðist sem átök sem deilur Landsvirkjunar og andstæðinga virkjana í neðri hluta Þjórsár séu að harðna því nú hefur Landsvirkjun sent frá sér yfirlýsingu um að fulltrúi fyrirtækisins komi ekki á opinn fund um Urriðafossvirkjun í Þingborg í kvöld.

Eins og fram hefur komið í fréttum eru allir jarðeigendur nema einn á áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar á austurbakka Þjórsár andvígir því að virkjunin verði byggð. Þá hefur meirihluti kosningabærra íbúa á vesturbakka Þjórsár í Flóahreppi skorað á sveitarstjórnina að endurskoða þá ákvörðun að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag sveitarfélagsins.

Fulltrúi Landsvirkjunar kemur ekki

Áhugafólk um samfélags- og umhverfismál í Flóahreppi boðaði til fundar um Urriðafossvirkjun í kvöld og þar kom fram að sjö manns með mismunandi skoðanir flyttu erindi. Landsvirkjun bregst við þessu í yfirlýsingu og segir að áhugahópurinn hafi auglýst að fulltrúi Landsvirkjunar fjalli um Urriðafossvirkjun á fundinum. Landsvirkjun hafi hins vegar ekki gefið vilyrði fyrir því að koma til þessa fundar og muni ekki gera það. Fyrirtækið harmi þessi vinnubrögð.

Fundurinn ekki heppilegur vettvangur fyrir upplýsingar um virkjun

Þá segir enn fremur í tilkynningu Landsvirkjunar: „Það vekur athygli að fjallað verður um jarðskjálfta og væntanlega áhrif þeirra á virkjunina. Hvorki hönnuðinum né þeim sem unnu áhættumat vegna hennar er boðið að kynna sín sjónarmið. Fjallað verður um lífríki Þjórsár og laxveiði en fulltrúa Veiðimálastofnunar sem unnið hefur viðamiklar rannsóknir á þessu efni er ekki boðin þátttaka.

Þá flytur þarna erindi lögfræðingur sem stendur að stjórnsýslukæru á hendur Flóahreppi og Landsvirkjun sem er til meðferðar hjá stjórnvöldum. Ekki er tímabært að málsaðilar standi að umræðum um það efni nú," segir Landsvirkjun og telur fundinn ekki heppilegan vettvang til að koma á framfæri upplýsingum um Urriðafossvirkjun.

„Fyrirtækið hefur haldið margar kynningar á virkjuninni á Suðurlandi og heldur þar úti fréttablaði um virkjanir í Þjórsá. Þá hefur fyrirtækið sett upp vefsíðuna www.thjorsa.is þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um áform fyrirtækisins. Landsvirkjun mun hér eftir sem hingað til kappkosta að gefa sem gleggstar upplýsingar um virkjanir í Þjórsá," segir enn fremur í yfirlýsingu fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×