Erlent

Obama er hársbreidd frá útnefningu sem forsetaefni

Barak Obama er nú hársbreidd frá því að geta lýst sig sigurvegarann og þar með forsetaefnið í forkosningum Demókrata í Bandaríkjunum. Hann vann í Oregon í nótt en Hillary Clinton sigraði í Kentucky

Með sigri sínum í Oregon er Obama nú kominn með meirihluta kjörmanna í þeim ríkjum þar sem forkosningar hafa verið haldnar. Og hann þarf innan við sjötíu í viðbót til að ná tölunni 2025 kjörmenn sem gulltryggja honum útnefninguna.

Obama valdi að flytja sigurræðu sína í nótt í ríkinu Iowa þar sem hann vann sinn fyrsta sigur í þessum forkosningum. Hann sagði meðal annars að nú hefði hann aðra hendina á útnefningunni en notaði jafnframt tækifærið til að óska Hillary Clinton til hamingju með baráttu sína í þessum forkosningum.

Hillary Clinton sigraði stórt í Kentucky eins og búist hafði verið við og hún er ekki á þeim skónum að gefast upp. Hún sagði við stuðningsfólk sitt að hún myndi berjast til enda í þessum kosningum.

Það harðnar hinsvegar á dalnum fyrir Hillary hvað fjármagn til baráttunnar varðar og er hún orðin stórskuldug. Obama bætti hinsvegar rúmlega tveimur milljörðum kr. við kosningasjóði sína í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×