Innlent

Mikil undiralda á fundi ljósmæðra í gærkvöld

Mikil undiralda var á fjölmennum fundi ljósmæðra í gærkvöldi og segir formaður Ljósmæðrafélagsins ómögulegt að ráða það af fundinum hvort miðlunartillaga ríkissáttasemjara verði samþykkt. Stjórn Ljósmæðrafélagsins hvetur þær ljósmæður sem sagt hafa upp störfum að draga uppsagnir sínar til baka en um helmingur þeirra hættir störfum um mánaðamótin að óbreyttu.

Um eitt hundrað ljósmæður mættu á félagsfund í Borgartúni í gærkvöldi þar sem miðlunartillaga ríkissáttasemjara í deilu þeirra við ríkisvaldið var kynnt. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir þetta mjög góða mætingu þar sem um helmingur þeirra tvö hundruð ljósmæðra sem starfa hjá ríkinu hafi mætt á fundinn.

Hún segir erfitt að lesa í hug félagsmanna gagnvart tillögunni þar sem viðbrögð hafi verið blendin og þung undiralda á fundinum og því ómögulegt að segja til um hver úrslit atkvæðagreiðslunnar verði. En atkvæðagreiðslan hefst nú á hádegi og stendur til klukkan tólf á hádegi á föstudag. Úrslit verða síðan kynnt klukkan tvö þann dag.

Forystukonur ljósmæðra þegja þunnu hljóði þegar spurt er um innihald miðlunartillögunnar en Fréttablaðið greinir frá því í dag að launahækkanir samkvæmt tillögunni geti verið allt að 21 prósent hjá sumum hópum innan félagsins, en ljósmæður höfðu farið fram á 25 próset hækkun.

Um tvö hundruð ljósmæður vinnan hjá ríkinu og hafa 98 þeirra sagt upp störfum og taka uppsagnirnar flestar gildi um næstu mánaðamót. Fjármálaráðherra hefur stefnt þeim öllum fyrir hönd ríkisins fyrir ólöglegar uppsagnir. Guðlaug Einarsdóttir segir stjórn félagsins hvetja þær sem sagt hafa upp störfum til að draga uppsagnirnar til baka verði miðlunartillagan samþykkt. Félagið geti hins vegar ekki beitt sé rað öðru leyti í málinu þar sem uppsagnirnar séu á einstaklingsgrundvelli og hver og einn verði að gera það upp við sig hvort uppsögn verði dregin til baka.

Guðlaug var á leið til Akureyrar nú rétt fyrir hádegi til að kynna félagsmönnum þar miðlunartillöguna en óvíst var hvort flogið verði til Akureyrar. Hún vonar að ljósmæður taki sér tíma til að meta tillöguna áður en þær greiða atkvæði sitt en atkvæðagreiðslan fer fram á netinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×