Innlent

Njörður til hrefnuveiða í hádeginu

Hrefnuveiðibáturinn Njörður heldur til veiða nú í hádeginu. Guðmundur Haraldsson, skipstjóri á Nirði, sagði í samtali við fréttamann Stöðvar 2 að ætlunin væri að byrja norðanlega í Faxaflóa, vel fyrir utan hvalaskoðunarsvæðin, og svo kannski fara suður fyrir Garðskaga. „Við höfum frétt af því að meira líf sé í sjónum en verið hefur þannig að við lítum björtum augum á þetta," segir Guðmundur. Aðspurður segir hann það fara eftir veðri og veiði hversu lengi skipið verði úti.

Aðspurður hvort atvinnuveiðarnar borguðu sig sagði Guðmundur: „Ég hef trú á því. Við náttúrlega eigum afurðirnar og ef fólk tekur vel í að kaupa höfum við fyrir okkar snúð." Hann vonast til að kvótinn verði aukinn en segir 40 hrefnur ágætar til að byrja með.

Aðspurður um þau orð gagnrýndenda veiðanna að þær skaði ímynd landsins segir Guðmundur að sú umræða hafi verið í gangi öll þessi ár og „hvalaskoðunarfólk hefur haft áhyggjur af þessu en það hefur bara ekki orðið nein minnkun hjá þeim. Ég held að þetta sé ágæt auglýsing þótt hún sé neikvæð," segir Guðmundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×