Innlent

Kári og Sara koma í stað Jóns og Guðrúnar

MYND/Stefán

Töluverðar breytingar eru að verða á nafngiftum á Íslandi ef marka má nýjar tölur Hagstofunnar um algengustu nöfn barna undir fjögurrra ára aldri um síðustu áramót.

Þannig eru Kári, Dagur og Alexander algengustu einnefni drengja á þessum aldri en ef tekið er mið af öllum aldurshópum voru Sigurður, Guðmundur og Jón algengustu einnefnin árið 2005. Sara, Freyja og Katla eru algengust einnefni stúlkna undir fjögurra ára en ef allir aldurshópar er skoðaðir kemur í ljós að Guðrún, Sigríður og Kristín voru algengustu einnefnin í íbúaskrá þjóðskrár árið 2005.

Tvínefni eru mun algengari meðal barna en fullorðinna og nú bera 82 prósent barna undir fjögurra ára tvö nöfn eða fleiri. Hið sama átti einungis við um 19 prósent þeirra sem náð höfðu 85 ára aldri hinn 1. janúar 2005. Algengustu tvínefni 0-4 ára drengja um síðustu áramót voru Sindri Snær, Mikael Máni og Andri Snær en algengustu tvínefni allra karla 1. janúar 2005 voru Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Meðal stúlkna yngri en fjögurra ára eru nöfnin Eva María, Anna María og Sara Lind algengust en algengustu tvínefni allra kvenna voru Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín árið 2005.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×