Innlent

Ævintýrahöll við Fríkirkjuveg

Guðrún Ásmundsdóttir vill meðal annars sýna nútímabörnum hvernig athafnamaðurinn Thor Jensen gaf fátækum börnum í Reykjavík morgunmat.
Guðrún Ásmundsdóttir vill meðal annars sýna nútímabörnum hvernig athafnamaðurinn Thor Jensen gaf fátækum börnum í Reykjavík morgunmat. Fréttablaðið/anton
Guðrún Ásmundsdóttir, fulltrúi minnihlutans í menningar- og ferðamálaráði, leggur til að Fríkirkjuvegur 11 verði gerður að Ævintýrahöll barnanna í sumar.

Eins og kunnugt er hefur borgarstjórn samþykkt að selja Björgólfi Thor Björgólfssyni Fríkirkjuveg 11 í Hallargarðinum. Guðrún segir að langafi Björgólfs, Thor Jensen, sem lét byggja húsið á sínum tíma, hafi verið mikill barnakarl.

„Þau hjónin áttu sex börn og hlúðu að þessu liði sínu á skemmtilegan hátt. Til dæmis er í kjallara hússins leiksvið sem börnin höfðu til umráða, því eins og allir vita er það eitthvað sem börn elska að fá að leika leikrit og eru fullorðnir ætíð skipaðir sem áhorfendur að þessum upp­átækjum," segir í greinargerð Guðrúnar með tillögunni.

„Börnunum yrði sýnt eldhúsið en þar eru bakdyr sem vísa að hestagerðinu. Hér áður fyrr fengu fátæk börn, sem ekki áttu þess kost að fá morgunmat heima hjá sér áður en þau fóru í skólann, að koma inn um þessar bakdyr og inn í eldhúsið hjá Thor Jensen hjónunum. Þar fengu þau staðgóðan morgunverð áður en þau hlupu í skólann.

Menningar- og ferðamálaráð vísaði tillögunni um Ævintýrahöllina til Höfuðborgarstofu. „Mér þykir vænt um hversu góðar móttökur þessi tillaga fékk," segir Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×