Innlent

Lettar latastir við að telja fram

Auk Íslendinga greiðir fólk frá tuttugu og níu þjóðlöndum skatta á Íslandi. Pólverjar eru fjölmennastir en Filipseyingar eru duglegastir við að skila inn skattframtölum. Lettar eru hins vegar latastir við að skila inn framtali.

Við álagningu 2007 voru um 253 þúsund einstaklingar á skattskrá. Þar af voru um 25.300 með erlent ríkisfang. Í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra er farið yfir það hvaða þjóðir standa sig best og verst þegar skattframtalið er annars vegar.

Það hefur farið vaxandi undanfarin ár að fólk trassi það að skila skattframtali. Fyrir tíu árum voru aðeins tæp 4 prósent sem skiluðu ekki skattframtali. Í fyrra var þessi tala komin yfir 7 prósent, en þá voru áætluð gjöld og tekjur á samtals rúmlega 18 þúsund gjaldendur. Þar af voru 5.750 erlendir ríkisborgarar, en það þýðir að tæplega 32 prósent útlendinga skiluðu ekki skattframtali og fá því áætlun frá skattinum.

Pólverjar eru fjölmennastir hér á landi. Þeir eru nokkuð duglegir við að skila skattframtölum, aðeins tæplega 13 prósent fengu áætlun.

Þá standa Filipseyingar sig vel í því að telja fram, aðeins 8.5 prósent þeirra fengu áætlun og aðeins 8.7 prósent Kínverja.

En þegar litið er á trassana, þá eru Lettar efstir á blaði. tæplega 63 prósent þeirra skiluðu ekki framtali og rúmlega 45 prósent Spánverja. Tæplega 42 prósent Frakka skiluðu ekki skattframtali og fengu því áætlun. Launagreiðendur bera ábyrgð á því að halda eftir staðgreiðslu af launum, en hún er ekki endanlegt uppgjör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×