Innlent

OR má einungis eiga þrjú prósent í HS

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu skoðað kaup OR á hlut í HS.
Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu skoðað kaup OR á hlut í HS. MYND/Páll Bergmann

Orkuveita Reykjavíkur má aðeins eiga þrjú prósent af heildarhlutafé Hitaveitu Suðurnesja samkvæmt ákvörðun sem Samkeppniseftirlitið birti í dag.

Þar kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að eignarhald Orkuveitunnar á stórum hlut í Hitaveitu Suðurnesja myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Bent er á að Orkuveitan hafi gert samninga sem leiða til þess að félagið getur eignast rúmlega 30 prósent hlut í HS. Jafnframt liggi fyrir að gert hafi verið hluthafasamkomulag sem styrkir þau áhrif sem OR geti haft í HS. Þessir gerningar gefi Orkuveitunni möguleika á að hafa til langframa veruleg áhrif á stjórnun og rekstur Hitaveitunnar og það sé í andstöðu við samkeppnislög.

„Forsaga málsins er sú að íslenska ríkið seldi hlut sinn í HS. Í skilmálum sölunnar kom fram að íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu mættu ekki bjóða í hlut ríkisins og var þetta gert til þess að vernda samkeppni. Í kjölfar sölunnar komst töluverð hreyfing á eignarhald í félaginu. Eignaðist þannig OR, einn helsti keppinautur Hitaveitunnar, um 15 prósenta hlut í félaginu. Var OR jafnframt skylt að kaupa um 15 prósent hlut Hafnafjarðarbæjar af sveitarfélaginu kysi það svo. Samkeppniseftirlitið tók viðskiptin til athugunar, en fyrirætlanir um samruna Reykjavík Energy Invest (REI), dótturfélags OR, og Geysis Green Energy höfðu áhrif á framgang rannsóknarinnar," segir á vef Samkeppniseftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×