Innlent

Sveitarfélögin voru blekkt

Stjórnvöld blekktu sveitarfélögin vísvitandi með nýrri skipulags- og byggingalöggjöf, segir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs. Hann segir að sveitarfélögum hafi verið talin trú um að skipulagsmál væru á þeirra valdi, en raunin sé allt önnur.

Þetta kom fram í ræðu Gunnars í dag á ráðstefnu sem bar yfirskriftina ,,Skipulag eða stjórnleysi". Ný könnun Capacent Gallups sýnir að að ríflega helmingi forsvarsmanna fyrirtækja og framkvæmdaraðila finnst sveitarfélögin sinna skipulagsmálum illa. Gunnar segir forsjárhyggju ríkisstofnana um að kenna.

,,Þessi öfl hafa komið ár sinni svo vel fyrir borð að þau eru í raun farin að stýra rás atburða í sveitarfélögunum. Og þá rifjast upp fyrir manni ádeilurit George Orwells: Big brother is watching you"

Gunnar rifjaði upp þegar ný skipulags- og byggingalöggjöf var kynnt fyrir rúmum 10 árum. Var markmið hennar að auka til muna frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaga í skipulagsmálum og einfalda meðferð skipulags og byggingarmála. Þá áttu þau að tryggja að dregið yrði úr afskiptum ráðherra.

,,En hver er reyndin?", spyr Gunnar, - ,,mér finnst að sveitarstjórnarmenn um allt land hafi látið plata sig. Í stað þess að auka vald og ábyrgð sveitarstjórna í skipulags- og byggingarmálum eins og um var talað, hefur valdið samkvæmt gildandi lögum færst yfir til stofnana ríkissins, og ég trúi því ekki að það hafi bara gerst svona óvart; ég er betur lesinn í Orwell en svo", sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×