Innlent

Vill slíta samskiptum við Ísrael

Félagið Ísland-Palestína segir íslensk yfirvöld eiga að slíta samskiptum við Ísraelsríki verði það ekki við kröfum um að hætta tafarlausts árásum á Gaza.

Í yfirlýsingu frá félaginu segir að það sé fráleitt hjá Ísraelsmönnum að skella skuldinni á árásunum á Gaza-ströndina á Palestínumenn. Heimasmíðaðar eldflaugar sem andspyrnuhópar hafi skotið frá svæðinu inn í Ísrael séu tylliástæða fyrir fjöldamorðunum sem Ísraelsmenn standi fyrir. 1-2 á ári hafi fallið fyrir flaugunum, sem í samanburði við ísraelsku vígavélina séu máttvana viðbrögð við ofurefli.

Félagið gagnrýnir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra fyrir að segja báða aðila bera ábyrgð á ástandinu. „Það var kaldranalegt að heyra utanríkisráðherra Íslands í Ríkisútvarpinu leggja fórnarlömb stríðsins og árásaraðalann að jöfnu með því að tala um deiluaðila sem báðir beri ábyrgð. Þó hafði hún áður lýst árásum Ísrelshers á Gazasvæðið sem óverjanlegum. Nær hefði verið að lýsa eindreginni samúð og stuðningi við hrjáða íbúa Gazasvæðinsins en helmingur íbúa þess eru flóttafólk sem mátt hefur bíða lausnar á sínum vanda í 60 ár," segir í yfirlýsingunni.

„Íslenskum stjórnvöldum ber að krefjast þess af Ísraelsstjórn að hún láti af árásarstefnu sinni og fjöldamorðum á Gazasvæðinu, ella verði samskiptum við Ísraelsríki slitið þar til stjórnvöld þar í landi sýni vilja í verki til að fara að alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hætti þegar í stað öllu árásum á palestínska íbúa herteknu svæðanna."

365




Fleiri fréttir

Sjá meira


×