Innlent

Íslenskir iðnaðarmenn á unglingataxta í Danmörku

Íslenskum iðnaðarmönnum býðst nú að starfa erlendis á kjörum sem teljast undirboð og eru sambærileg þeim sem pólskum og portúgölskum starfsmönnum bauðst hérlendis. Formaður Samiðnar hvetur engan til að freista gæfunnar utan landsteinanna án þess að vera með tryggt atvinnutilboð í vasanum.

Mikið atvinnuleysi blasir við í bygginariðnaði hér á landi, en ástandið er síst betra annars staðar á Norðurlöndunum. Helst er þó vonarglæta í Noregi og ekki er loku fyrir það skotið að einn og einn fái góða vinnu.

Fréttastofan hefur vitneskju um tilboð frá dönskum verktaka, sem hefur óskað eftir um 10 til 15 manna hópi iðnaðarmanna sem starfi á launum sem eru sambærileg þeim sem eru á Íslandi og er húsnæði útvegað.

Verktakinn greiðir í dönskum krónum, en hirðir sjálfur gengismuninn. Þau kjör myndu jafngilda launum 18 ára unglings í Danmörku, að sögn Finnbjörns Hermannssonar formanns Samiðnaðar, og teldist undirboð svipað þeim sem erlendum farandverkamönnum sem komu til Íslands bauðst fyrir nokkrum árum.

Stéttarfélög láta þetta vart óátalið og hvetur Finnbjörn menn til að taka ekki kjörum sem eru lakari en þau sem viðgangast í því landi sem þeir eru að vinna í.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×