Erlent

Facebook bannar myndir af brjóstagjöf

Þúsundir kvenna hafa mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar tengslasíðunnar Facebook undanfarna daga, eftir að myndir af mæðrum að gefa börnum sínum brjóst voru fjarlægðar af vefnum.

Stjórnendur Facebook skilgreina myndir þar sem sést í vörtubauginn - ytri hluta geirvörtunnar - sem klámfengnar. Þær konur sem setja brjóstagjafamyndir á síðuna sína þar sem sést í þennan forboðna líkamspart mega því eiga von á því að þær verði fjarlægðar.

Það kom einmitt fyrir Heather Farley. Hún sendi Facebook tölvupóst þar sem hún spurði hvers vegna mynd af henni að gefa barninu sínu brjóst hefði verið fjarlægð. Ekkert svar barst, en þegar hún setti inn aðra svipaða mynd fékk hún tölvupóst þar sem hún var vöruð við því að ef hún birti fleiri slíkar myndir yrði reikningnum hennar eytt.

Eftir að Farley bloggaði um málið varð allt vitlaust. Hópur sem berst gegn því að Facebook ritskoði brjóstagjafamyndir hefur verið stofnaður á síðunni, og fjölgar meðlimum hans um þúsundir manna á dag. Þeir eru nú 76 þúsund talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×