Innlent

Ekkert í svörum ESA sem gerir kröfu um aðskilnað lána hjá Íbúðalánasjóði

MYND/GVA

Í svörum Eftirlitsstofnunar EFTA við fyrirspurnum Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri - grænna, er ekkert að finna sem gerir kröfu um að Íbúðalánasjóður aðskilji félagsleg og almenn lán. Þetta fullyrti þingmaðurinn á Alþingi í dag. Formaður félags- og tryggingamálanefndar segir engar stórbreytingar á sjóðnum í pípunum.

Það var Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem vakti athygli á málefnum Íbúðalánasjóðs á Alþingi. Hann sagði mikilvægt að búa við sterkan Íbúðalánasjóð því hann væri í dag eini aðilinn á húsnæðismarkaði, væri rekinn án arðssemissjónarmiða og byði langlægstu vextina.

Sagði hann framsóknarmenn vilja standa vörð um sjóðinn en ríkisstjórnarflokkarnir töluðu kross varðandi hann. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu sagt að breyta ætti sjóðnum í heildsölubanka en ráðherrar Samfylkingar hefðu sagt að ekkert slíkt stæði til. Sagði hann þetta með öllu óásættanlegt og spurði Guðbjart Hannesson, formann félags- og tryggingamálanefndar, hvort hann teldi koma til greina að það væri hluti af svokallaðri þjóðarsátt að Íbúðalánasjóður hyrfi af húsnæðismarkaði líkt og Samtök atvinnulífsins hefðu lagt til.

Ekki neinar stórbreytingar á sjóðnum

Guðbjartur Hannesson sagðist ekki hafa heyrt neinar útgáfur af málinu aðrar en þær að koma ætti til móts við álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um að skilið yrði á milli félagslegra og almennra lána hjá Íbúðalánasjóði. Sagðist Guðbjartur telja að mikilvægt væri að verja sjóðinn og að ekki væru áætlaðar neinar stórbreytingar á sjóðnum. Þá sagði hann að það væri óráðlegt að fara eftir hugmyndum Samtaka atvinnulífsins í málinu.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, sagði málefni Íbúðalánasjóðs varða hverja einustu fjölskyldu í landinu og að það væri hluti af velferðarkerfinu hér á landinu að geta komið sér þaki hyfir höfuðið. Sagðist hann hafa í tvígang spurt forsvarsmenn ESA út í álit stofnunarinnar um Íbúðalánasjóð en ekkert í þeirra svörum benti til þess að eftirlitsstofnunin gerði kröfu um aðskilnað félagslegra og almennra lána. Þá sagði Árni að ekkert kæmi í veg fyrir að íslensk stjórnvöld skilgreindu öll íbúðalán sem félagsleg gagnvart ESA.

Íbúðalánasjóðir þjóðnýttir vestan hafs

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku til máls og benti Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri - grænna, á það hvernig farið hefði fyrir íbúðalánasjóðum á bandarískum markaði. Réttast væri að senda forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins vestur um haf til þess að kynna sér hvernig þar hefði farið eftir að íbúðalánasjóðir fóru á hlutabréfamarkað. Tveir sjóðir hefðu nýverið verið þjóðnýttir þar í landi og staðan á fasteignamarkaði mjög erfið.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sagði að ekki ætti að breyta Íbúðalánasjóði og það giltu almennar og gengsæjar reglur um hann sem næðu til allra í landinu. Kerfið stæði undir sér og væri ekki íþyngjandi fyrir ríkissjóð og væri það ódýrasta til þess að tryggja öllum lán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×