Innlent

Mannréttindardómstóllinn dæmir íslenska ríkið skaðabótaskylt

Stúlkan fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Hæstarétti.
Stúlkan fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Hæstarétti. MYND/365

Mannréttindardómstóll Evrópu hefur úrskurðað að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart níu ára gamalli stúlku vegna læknamistaka. Alls er ríkinu gert að greiða stúlkunni 6,4 milljónir króna í bætur auk 1,5 milljón króna í málskostnað. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi stúlkunni 28,5 milljónir króna í bætur árið 2002 en Hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfunni tveimur árum seinna. Samkvæmt úrskurði Mannréttindardómstólsins fékk stúlkan ekki réttláta málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

Stúlkan fæddist á kvennadeild Landspítalans í marsmánuði árið 1998. Fæðingunni var lokið með bráðakeisaraskurði en við skoðun kom í ljós íferð í lunga og var stúlkan því sett í hitakassa, gefið súrefni og sett á sýklalyf. Þræddir voru æðaleggir í naflabláæð og naflaslagæð til að fylgjast með sýrustigi, súrefnisinnihaldi og koltvísýringsinnihaldi.

Stúlkan varð fyrir töluverðum heilaskemmdum í meðferðinni og hefur verið metin 100 prósent öryrki síðan. Talið var að lega slagæðaleggsins hafi valdið heilaskemmd.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi stúlkunni í vil í apríl árið 2002 og gerði ríkinu skylt að greiða henni 28,5 milljónir króna í skaðabætur vegna læknamistaka. Hæstiréttur sneri dómi héraðsdóms hins vegar við og sýknaði ríkið.

Í dómi Mannréttindardómstóls Evrópu þykir það gagnrýnisvert að Hæstiréttur hafi leitað umsóknar hjá læknaráði varðandi málið. Í læknaráði sitja meðal annars læknar frá Landspítalanum og því þykir stúlkan hafa verið svipt rétti sínum á réttlátri málsmeðferð.

Í fréttum Ríkisútvarpsins var eftir Heimi Erni Herbertssyni, lögmanni stúlkunnar, að hann muni í kjölfar dóms Mannréttindardómstólsins höfða skaðabótamál á hendur ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×