Innlent

Lekanda- og klamydíutilfellum fjölgar mikið

Helmingur þeirra sem greindust með HIV og alnæmi eru af erlendu bergi brotnir.
Helmingur þeirra sem greindust með HIV og alnæmi eru af erlendu bergi brotnir. MYND/VG

Mun fleiri greindust smitaðir af lekanda á síðasta ári miðað við árin þar á undan samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Landlæknisembættisins. Alls greindust 31 einstaklingur með lekanda á síðasta ári en árið þar á undan voru þeir 19. Þá greindust einnig fleiri klamydíutilfelli á síðasta ári miðað við fyrra ár.

Samkvæmt árskýrslu Landlæknisembættisins fyrir árið 2006 varð mikil aukning á lekandasmiti á síðasta ári. Fram kemur í skýrslunni að meirihluti smitaðra hafi smitast á Íslandi sem sé nýlunda miðað við fyrri ár þegar nánast allt lekandasmit átti uppruna sinn erlendis. Á síðustu tveimur árum hafa 50 lekandasmit greinst hér á landi en á árunum 2001 til 2004 greindust alls 23 tilfelli.

Þá greindust 1.729 klamydíutilfelli sem er væg aukning miðað við árið á undan þegar 1.622 tilfelli voru greind. Sýkingin greindist oftar hjá konum en körlum og er algengust í aldurshópnum 20 til 24 ára. Fólk á aldrinum 15 til 19 ára fylgdi í kjölfarið.

Þá greindust 11 sjúklingar með HIV-sýkingu. Þar af átta karlar og þrjár konur. Tveir karlar og ein kona greindust með alnæmi og einn karlmaður lést af völdum sjúkdómsins á árinu. Í skýrslunni kemur fram að HIV-sýking og alnæmi sé enn sjaldgæfur sjúkdómur hér á landi. Hlutur gagnkynhneigðra fer vaxandi ár frá ári og helmingur þeirra sem greindust í fyrra eru af erlendu bergi brotnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×