Innlent

Mun færri fíkniefnamál á útihátíðum en í fyrra

Fíkniefnamál um nýliðna verslunarmannahelgi virðast hafa verið einungis fjórðungur af þeim fjölda mála sem komu upp í fyrra. Lögregla telur að þetta megi meðal annars þakka öflugu eftirliti fyrir og um helgina.

Fram hefur komið í fréttum um helgina að rólegra hafi verið hjá lögreglu víða um land en oft áður um verslunarmannahelgi. Endanlegar tölur um afbrot liggja ekki fyrir ljóst er að verulegur árangur hefur náðst í fíkniefnamálum. Þannig komu um 20 fíkniefnamál upp á útihátíðum um helgina en þau voru um 80 í fyrra. Þá hefur engin kæra verið lögð fram um nauðgun um helgina enn sem komið er.

Þegar leitað er skýringa hjá lögreglunni á færri fíkniefnamálum bendir hún á að eftirlit með fíkniefnasölum hafi verið strangt og hafi hafist töluvert fyrir helgi. Þá hafi lögregla komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri að öflugt eftirlit yrði um helgina og það hafi einnig haft sitt að segja.

Ekki eru þó engöngu jákvæðar fréttir að fá hjá lögreglunni því töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt vegna þjóðhátíðargesta. Talsverður fjöldi vaar í Herjólfsdal í nótt og var mikil ölvun þar og sömuleiðis í miðbænum. Lögregla segir fólk hafa tekið upp á því að brenna tjöld í Herjólfsdal undir morgun. Engin gæsla hafi verið í dalnum og erfitt hafi verið fyrir lögreglu að koma í veg fyrir að tjöld yrðu brennd. Einn gisti fangageyslur vegna ölvunar en ekki komu upp alvarleg atvik í nótt.

Heldur var farið að hægjast um á níunda tímanum í Herjólfsdal enda áttu margir þjóðhátíðargesta pantað far með Herjólfi sem lagði af stað frá Eyjum laust eftir klukkan átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×