Lífið

Leikstýrði setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins

Þorleifur Arnarsson var fengin af góðum vinum til að gefa skipuleggjendum Landsfundar Sjálfstæðisflokksins góð ráð með setningarathöfnina.
Þorleifur Arnarsson var fengin af góðum vinum til að gefa skipuleggjendum Landsfundar Sjálfstæðisflokksins góð ráð með setningarathöfnina. MYND/Rósa

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins stendur yfir í Laugardalshöll þessa helgina. Og eins og lesendur Fréttablaðsins hafa séð er ekkert til sparað við umgjörð hans enda um að ræða einn stærsta fund ársins. Geir H. Haarde flutti á fimmtudaginn ræðu sína til flokkssystkina sinna og var eftir því tekið hversu glæsileg innkoman var hjá frambjóðendum flokksins fyrir alþingiskosningarnar í maí. Og þá ekki síður hversu allt virtist vera vel skipulagt, einhvern veginn allt á sínum stað.

Þetta er engin tilviljun því skipuleggjendur landsfundarins fengu félaga sinn, leikstjórann Þorleif Arnarsson, sem er við nám í Berlín, til liðs við sig og báðu hann um góð ráð fyrir setningaratriðið. Þorleifur tekur skýrt fram að hann hafi ekkert með eiginlega skipulagningu fundarins að gera.

„Enda eru það mér eldri og reyndari menn sem hafa séð um þá hlið málsins,“ útskýrir hann. Hann viðurkenndi þó að hann hefði komið að uppsetningu sviðsins. „Því það skiptir máli hvar hlutirnir og ræðumenn eru staðsettir. Þetta er alls ekki svo ólíkt leikhúsinu þar sem sviðsmunir og leikarar þurfa að vera á réttum stað,“ útskýrir hann og bætir að mesta framlagið hafi verið söngatriðin sem hljómuðu við upphaf fundarins.

 

Aðalleikararnir Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins tóku sig vel út á sviðinu í Laugardalshöll og léku sitt hlutverk ákaflega vel.fréttablaðið/Anton

„Leikhús gengur á hughrifum. Það var til að mynda góð stemning fyrir því að láta frambjóðendur koma saman uppi á sviði og láta það marka upphaf kosningabaráttunnar og ná um leið fram einhverjum hughrifum. Við leikgerðum í raun þessa innkomu með góðum og gildum leikhúsaðferðum,“ útskýrir Þorleifur.

Þorleifur segist aðeins hafa kynnt sér landsfundi bandarísku flokkanna tveggja, repúblíkana og demókrata, fyrir fundinn. Þeir eru frægir fyrir hvers kyns sýndarmennsku enda segir leikstjórinn þá fundi meira í ætt við afþreyingu heldur en pólítík þar sem hugmyndin sé að selja einhverja pakka-ímynd. Og slíkt á ekki upp á pallborðið hjá Þorleifi.

„Íslendingar krefjast þess sem betur fer enn að það sé innihald og tenging á þessum fundum. Og vilja ekki sjá hvítar dúfur og sprengingar. Okkur langar ekkert í slíkt og getum í raun ekki leyft okkur slíka hluti,“ segir Þorleifur. Hann segist hafa það á tilfinningunni að stjórnmálaflokkar séu í sífellt meira mæli farnir að nýta sér hæfni og krafta fagfólks í hinum listræna geira. „Þú færð ljósameistara til að stjórna ljósunum, skáld til að skrifa ræðu. Af hverju ekki leikstjóra til aðstoða við sviðsetningu?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.