Lífið

Stór áfangi að stíga á stóra sviðið

Lára Sveinsdóttir stígur á stóra svið Þjóðleikhússins í fyrsta skipti í kvöld þegar hún bregður sér í hlutverk Heiðu í Sitji Guðs englar. Oft er talað um stóra stund í lífi leikara þegar þeir afreka þetta og Lára segist vissulega vera með hnút í maganum.

Ekki þó vegna þess að þetta sé stóra sviðið heldur vegna þess að það snúist. Hún segist því meira finna fyrir fiðringi heldur en einhverri hræðslu. „Ég hef aldrei leikið á svona snúningssviði og fæ bara eitt rennsli áður en stóra stundin rennur upp," segir Lára en hún tekur við hlutverkinu af Brynhildi Guðjónsdóttur sem farin er til London og tekur þátt í uppfærslunni á Pétri Gaut í Barbican Center í leikstjórn Baltasars Kormáks.

Lára hlakkar þó fyrst og fremst til kvöldsins enda er verkið skemmtilegt og mikið af skemmtilegu fólki í kringum hana. „Þetta er náttúrlega Þjóðleikhúsið og því stór stund að stíga á þetta svið en þetta verður allt í lagi," segir Lára. „Þetta er eitthvað sem alla leikara dreymir um og eitthvað sem allir verða að prófa," bætir hún við.

Lára hefur hingað til aðallega leikið í barnaleikritum en kom einnig fyrir í litlu hlutverki í kvikmyndinni Börn auk þess sem hún hefur skemmt sjónvarpsáhorfendum Stöðvar 2 í gamanþáttunum Stelpunum. Og nóg er af verkefnum í nánustu framtíð og ber þar hæst frumraun Björns Hlyns Haraldssonar í leikstjórastólnum í sumar. „En meira get ég ekki sagt um það, þetta verður allt að koma í ljós."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.