Lífið

Helga fer til Helsinki

Helga styður manninn sinn, Eirík Hauksson, í blíðu og stríðu í Eurovision.
Helga styður manninn sinn, Eirík Hauksson, í blíðu og stríðu í Eurovision. MYND/Anton

Helga Guðrún Grímsdóttir, kona Eurovision-stjörnunnar Eiríks Haukssonar, mun fylgja manni sínum á lokakeppnina í Helsinki í maí.

Þetta verður ekki í fyrsta skiptið sem Helga Guðrún styður við bakið á Eiríki því hún var honum einnig til halds og trausts þegar hann söng Gleðibankann í Bergen árið 1986 og þegar hann söng fyrir Noregs hönd í Róm fimm árum síðar.

„Það er ægilega gaman að þessu. Þetta er eins og að vera í miðju ævintýri,“ segir Helga Guðrún um Eurovision-keppnina. „Það var svo rosalega vel staðið að báðum þessum keppnum, sérstaklega í Bergen. Það er alltaf mikið um að vera, líka fyrir stuðningsmennina. Maður fær að upplifa svo margt og það er alltaf mjög gaman að kynnast nýju fólki,“ segir hún.

Helga Guðrún segist hingað til ekki hafa gefið Eiríki sérstök ráð áður en hann hefur stigið á svið frammi fyrir milljónum áhorfenda. „Ég veit að hann gefur allt sem hann á og svo er bara að reyna að ná að slappa aðeins af áður en stundin rennur upp svo það verði ekki mikið stress í gangi.“

Hvað varðar fataval Eiríks, segist Helga vissulega segja sitt álit en ekkert meira en það. „Það eru aðrir sem koma þar við sögu en ég er ekki til í að horfa á hvað sem er,“ segir hún og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.