Innlent

Hæsta bygging á Íslandi rís

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Hæsta bygging á Íslandi rís nú hratt upp frá grunni á Smáratorgi. Um er að ræða 20 hæða turn þar sem verslun og viðskipti verða í hávegum höfð. Og götumyndin í Smáranum tekur miklum breytingum þessar vikurnar. Það er fasteignafélagið SMI sem er að mestu í eigu Jakúps Jacobsen í Rúmfatalagernum sem stendur að byggingunni. Hún verður tilbúin í október og verður tæpir 80 metrar á hæð.

Davíð Freyr Albertsson framkvæmdastjóri félagsins segir verkið vera nokkurn veginn á áætlun, bæði fjárhags- og framkvæmdarlega. Unnið sé allan sólarhringinn við uppsteypu og þegar hafi 12 hæðir risið.

Um er að ræða 20 þúsund fermetra skrifstofu og verslunarhúsnæði og 10 þúsund fermetra bílakjallara. Heildarkostnaður við bygginguna mun hlaupa á fjórum milljörðum. Nú þegar hefur verið gengið frá leigu á 75 prósentum húsnæðisins.

Á efstu hæð turnsins verða veislu- og fundarsalir, Tvær hæðir verða ætlaðar fyrir veitingastaði, en auk ýmissa skrifstofufyrirtækja í turninum verður líkamsræktarstöð á einni hæð hans.

Smári Smárason hjá skipulagssviði Kópavogsbæjar segir að frekari áform séu um uppbyggingu fasteigna fyrir verslun- og viðskipti á svæðinu. Nú þegar hefur verið samþykkt að byggja 15 hæða turn á bílastæðinu fyrir framan Debenhams í Smáralind. Smári segir áform um að nýta svæðið í kring betur með tíð og tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×