Lífið

Bubbi og Tolli undir merkjum Kaupþings

Bubbi og Tolli auðga anda þátttakenda í árlegum viðburði Kaupþings.
Bubbi og Tolli auðga anda þátttakenda í árlegum viðburði Kaupþings.

Bræðurnir Tolli og Bubbi Morthens halda til Lúxemborgar í byrjun maí, þar sem þeir verða með listviðburði á vegum Kaupþings. „Ég er að fara að halda sýningu í einhverju menningarsetri þarna, sem mig minnir að heiti Le Moulin. Þetta er gamalt klaustur sem var síðar notað sem fangelsi.

Þarna eru miklir salir og mikið pláss, og flottur tónleikasalur sem Bubbi heldur tónleika í,“ útskýrði Tolli. Verkin sem hann sýnir hafa áður verið til sýningar í Magasin du Nord, en hafa enn ekki komið fyrir augu almennings hér heima.

Sýning hans og tónleikar Bubba eru hluti af árlegum viðburði sem bankinn stendur fyrir, að sögn Tolla. „Um helgina eru þeir með golfmót sem íslenskum viðskiptavinum er boðið á. Þá labba menn um grænar grundir, berja kúlur og ræða málin eins og menn á þessum vettvangi gera iðulega,“ sagði Tolli. Eftir helgina tekur listin svo við. „Við verðum þarna annan maí,“ útskýrði Tolli.

 

rauði fáninn farinn Tolli segir þá bræður eitt sinn hafa gengið undir rauðum fána 1. maí, en honum hefur nú verið skipt út fyrir merki Kaupþings.

Bræðurnir hafa ekki unnið saman að verkefni á borð við þetta í lengri tíma. „Við gerum eitt og annað saman þegar þannig stendur á, en það er langt síðan við höfum gert eitthvað af þessari stærðargráðu saman,“ sagði Tolli. Aðspurður hvort það hafi þá þurft banka til að sameina bræðurna hlær Tolli við. „Ja, einu sinni gengum við saman undir rauðum fána fyrsta maí. Nú göngum við saman undir merkjum Kaupþings,“ sagði hann sposkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.