Lífið

Ekta síðkjólaball

Ekta síðkjólaball í Íslensku óperunni í kvöld. Söngglatt fólk og söngvinir eru hvattir til að mæta. Mynd/Albert Eiríksson
Ekta síðkjólaball í Íslensku óperunni í kvöld. Söngglatt fólk og söngvinir eru hvattir til að mæta. Mynd/Albert Eiríksson

Nú er mál að taka fram dansskóna og æfa valsinn og polkann því í kvöld verður haldið ball í Íslensku óperunni. Hið svokallaða söngvaraball er nú haldið í annað sinn en framtak þetta sló í gegn í fyrra. Ballið er haldið að erlendri fyrirmynd en á meginlandinu er rík hefð fyrir samkomum sem þessum.

Söngvaraballið er ekta síðkjólaball þar sem íslenskir söngvarar koma saman og skemmta sér og öðrum. Allir þeir sem hafa áhuga á söng, starfa við söng, syngja í kórum, hljómsveitarfólk, vinir, vandamenn og velunnarar sönglistar á Íslandi eru hjartanlega velkomnir.

 

Davíð Ólafsson bassasöngvari. Veislustjórinn prúðbúni heldur uppi fjörinu í Ingólfsstrætinu.MYND/Stefán

Húsið verður opnað kl. 20 og klukkustund síðar hefjast tónleikar á sviði óperunnar þar sem margir af ástsælustu söngvurum landsins stíga á stokk. Heiðursgestir á ballinu eru hjónin Sieglinde Kahmann og Sigurður Björnsson en þau hafa komið víða við í íslensku tónlistarlífi síðastliðin þrjátíu ár. Veislustjóri er Davíð Ólafsson óperusöngvari og mun hann halda uppi stemmingunni af sínum alkunna hressleika og hugmyndaauðgi.

Að loknum tónleikunum leikur strengjasveitin Sardas fyrir dansi en sveit sú er skipuð félögum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og síðar um kvöldið mun Léttsveit Suðurnesja leika nokkur lög.

Allt húsið verður opið, frá kjallara og upp í rjáfur og má búast við því að tónlist og söngur ómi í hverjum krók og kima.

Miða á uppákomuna má nálgast á vef Íslensku óperunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.