Innlent

Þingmenn frekar óþægir í stórum meirihlutastjórnum

Einar K. Guðfinnsson telur að sú ríkisstjórn sem nú er í burðarliðnum geti öflug en hefur ekki hugmynd um hvort hann verði ráðherra í henni. Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði segir líklegra að einstakir þingmenn verði óþekkir í stjórn með stóran meirihluta en í stjórn með lítinn meirihluta.

Sjálfstæðismenn hafa ekki starfað með jafnaðarmönnum frá því Samfylkingin varð til við sameiningu Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, hluta Kvennalistans og Þjóðvaka. Allt frá því Samfylkingin var stofnuð árið 1999 hafa þingmenn hennar verið í stjórnarandstöðu og tekist á við Sjálfstæðisflokkinn. Það er því nýtt fyrir liðsmenn þessara flokka að stilla saman strengi sína sem samherjar á Alþingi.

Einar K Guðfinnson sjávarútvegsráðherra líst vel á væntanlega ríkisstjórn og telur að hún geti orðið öflug. Hann segist ekki hafa hugmynd um hvort hann verði áfram ráðherra, það komi bara í ljós.

Meirihluti nýrrar ríkisstjórnar verður mjög stór, eða 43 þingmenn á móti tuttugu þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir að þingmenn stjórnarflokka í svo miklum meirihluta, leyfi sér frekar að sýna pólitíska óþekkt en þegar ríkisstjórn styðst við lítinn meirihluta.

Þrátt fyrir þetta segir Ólafur að formenn flokkanna velji yfirleitt stóru stjórnina með mikinn meirihluta en stjórnarmynstur með litlum meirihluta, geti þeir valið þar á milli.

Ólafur segir að í svo stórum meirihluta skipti það litlu máli þótt nokkrir þingmenn hlaupi útundan sér. Þingmenn gætu þó verið að taka þá áhættu að verða ýtt út í kuldann. Hins vegar skipti þá meira máli að vinna í prófkjörum en að sýna forystunni skilirðislausa hollustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×