Innlent

Steingrímur: „Þjóðin vill breytingar“

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna sagði í ræðu sinni við setningu landsfundar flokksins síðdegis að meginverkefni komandi kosninga væri stjórnarandstöðunnar að fella ríkisstjórnina. „Þjóðin vill breytingar", sagði Steingrímur. „Og það er gríðarlega mikilvægt að allir átti sig á að forsenda þeirra breytinga er ein og aðeins ein: það er að fella ríkisstjórnina! Það verða engar breytingar í íslenskum stjórnmálum nema ríkisstjórnin falli. Það er algerlega á hreinu, eins víst og að tvisvar tveir eru fjórir, jafn öruggt og að vatnið leitar niður í móti, að hangi stjórnarflokkarnir á meirihluta, þá halda þeir áfram. Þeir eru samgrónir eftir 12 ára sambúð", sagði Steingrímur.

Þá vildi hann meina að samstarf stjórnarandstöðuflokkana hefði verið gott það sem af væri kosningaveturs, að annað væri tilbúningur andstæðinga þeirra í ríkisstjórn og fjölmiðla þeim hliðhollum.

Þá varð honum tíðrætt um góða stöðu Vinstri grænna í skoðanakönnunum. „Við höfum mánuðum saman verið eini flokkurinn sem hefur mælst stöðugt með umtalsvert, reyndar iðulega tvöfalt og langleiðina í þrefalt það fylgi sem við fengum í síðustu kosningum. Aðrir flokkar eru samkvæmt öllum þessum mælingum ýmist að tapa fylgi - sumir verulega eins og Framsókn - eða u.þ.b. halda sjó. Þetta er það stóra og það sögulega sem getur verið í vændum og við, góðir félagar, við skulum ekki unna okkur hvíldar, við skulum leggja nótt við dag og gera allt sem í okkar valdi stendur til að láta þennan draum rætast".

Þá sagði hann það ekki vera vegna ráðherrastóla eða titla eða vegna þeirrar spillingar sem hann vildi meina að viðgengist hjá stjórnarflokkunum heldur vegna þess að þörf væri fyrir grundvallar stefnubreytingu.

„Rauða spjaldið á helmingskiptaflokkana sem úthlutuðu sér einum banka hvor, útaf með þá", sagði Steingrímur um spillingu stjórnarflokkanna.

Fundurinn hófst sem sagt á Grand hótel í Reykjavík fyrr í dag og stendur yfir helgina. Þetta er fjölmennasti landsfundur Vinstri grænna til þessa.

MYND/Oddur
MYND/Oddur
MYND/Oddur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×