Innlent

Ætla að hlaupa rúma 160 kílómetra á tveimur sólarhringum

Börkur Árnason, og Höskuldur Kristvinsson
Börkur Árnason, og Höskuldur Kristvinsson

Þrír Íslendingar eru lagðir af stað til Chamonix í Frakklandi þar sem þeir munu taka þátt í 163 km fjallahlaupi í kringum Mont-Blanc. Þeir Höskuldur Kristvinsson og Börkur Árnason ætla að hlaupa allan hringinn en bróðir Barkar, Birkir Árnason mun hlaupa hálfan hring. Þeir hafa 48 tíma til verksins, nái þeir hlaupinu ekki innan þess tíma falla þeir úr keppni.

Hlaupaleiðin í Tour Du Mont-Blanc liggur um fjöll og firnindi í Ölpunum, og gegnum þrjú lönd, Frakkland, Sviss og Ítalíu.

Heila hlaupið hefst klukkan fjögur aðfaranótt föstudagsins 24. að íslenskum tíma, en það hálfa sex tímum síðar. Um 2200 manns eru skráðir í hlaupið en sé eitthvað að marka reynslu síðustu ára mun einungis um helmingur þeirra klára hlaupið.

Börkur og Höskuldur hafa báðir reynt sig á þessarri hlaupaleið áður. Börkur hljóp hálfan hringinn í fyrra og Höskuldur reyndi við heilan hring árið 2004 en varð þá frá að snúa eftir 117 kílómetra vegna ofþreytu. Í tilkynningu um hlaupið segir að Höskuldur sé í betra formi í dag þrátt fyrir að vera þremur árum eldri. Hann er í dag 57 ára - jafngamall og sigurvegari hlaupsins í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×