Innlent

Opnunartíma skemmtistaða verður ekki breytt

Björn Ingi Hrafnsson forseti borgarráðs og Stefán Eiríksson lögreglustjóri ræða málin á fundinum.
Björn Ingi Hrafnsson forseti borgarráðs og Stefán Eiríksson lögreglustjóri ræða málin á fundinum. MYND/Stöð 2

Á fundi sem lögreglustjóri og borgaryfirvöld héldu með veitingamönnum í miðbænum í Rúgbrauðsgerðinni í dag kom m.a. fram að engin áform eru uppi um að breyta opnunartíma skemmtistaða. Fundurinn var mjög fjölsóttur og gat Stefán Eiríksson lögreglustjóri þess raunar í inngangsorðum sínum að fleiri væru mættir en boðaðir voru.

Stefán Eiríksson fór í gegnum stöðuna eins og hún er í dag og aðgerðir sem framundan eru gegn því sem kallað hefur verið óþolandi ástand við veitingastaði og bari í miðbænum um helgar. Nefndi hann m.a. meiri sýnileika lögreglunnar og að brýnt væri að fjölga myndavélum einkum ofar á Laugaveginum. Stefán gat þess að minniháttar líkamsárásum hefði fjölgað en á móti hefði alvarlegum brotum fækkað.

Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjóri ræddi í máli sínu m.a. um viðræður sem hann hefði átt við hagsmunaaðila í Austurstræti. Kvað hann þá segja að ástandið í og við götuna væri orðið óþolandi. Ferðamenn gætu ekki gengið um svæðið án þess að verða fyrir áreiti einkum betli af hálfu útigangsmanna sem oft væri mjög frekjulegt. Það kom einnig fram í máli Vilhjálms að engin áfrom væru uppi um að breyta opnunartíma veitingastaða í miðbænum.

Þeir veitingamenn sem tóku til máls á fundinum ræddu m.a. um reykingarbannið og voru menn ýmist með eða á móti því. Einnig komu fram raddir um að breyta þeim reglum sem kveða á um að gestir mega ekki taka áfengi með sér út af stöðunum. Var m.a. sagt að nær ómögulegt væri að hafa eftirlit með slíku og nær að breyta reglum þannig að gestir mættu taka áfengi með sér út í plastglösum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×