Skoðun

Opið bréf til oddvita um Árnesfundinn

Bréfið er ritað í tilefni af endurteknum ummælum oddvita Skeiða og Gnúpverjahrepps í fjölmiðlum síðustu daga. Oddvitinn heldur því fram að fundur virkjanaandstæðinga í Árnesi segi ekkert um vilja heimamanna, því þar hafi aðallega verið aðkomufólk. Undirrituð benda honum á nokkur atriði til umhugsunar.

Í fyrsta lagi: Ef Gunnar Örn Marteinsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur það einkamál ábúenda á lögbýlum í Gnúpverjahreppi að taka ákvörðun um eyðileggingu Þjórsár allt til sjávar, skortir hann þekkingu og skilning á almennri stjórnsýslu, náttúruvernd og borgaralegum réttindum. Þá skortir hann líka virðingu fyrir skoðunum annarra.

Í öðru lagi: Ef Gunnar Örn Marteinsson þekkir ekki bæina í sveitinni né íbúa þeirra er það afleitt mál fyrir oddvita í litlum hreppi. Honum skal því bent á að á fundinn mætti fólk frá Haga, Fossnesi, Hamarsheiði, Hamarsholti, Stóru Mástungu, Minni-Mástungu, Ásum, Stóra-Núpi, Þjórsárholti, Skaftholti, Hlíð, Háholti, Eystra Geldingaholti og Vestra Geldingaholti, Stöðulfelli, Sandlækjarkoti, Sandlæk, Skarði, Brautarholti, Vorsabæ, Skeiðháholti og Húsatóftum, svo nokkuð sé nefnt. Margir þessara bæja liggja að Þjórsá, en það gerir bær oddvitans ekki.

Í þriðja lagi: Ef Gunnar Örn Marteinsson ætlar að afgreiða það fólk sem ver frístundum sínum í sveitinni, eins og eitthvert aðskotafólk sem sé málið óviðkomandi, skyldi hann staldra við. Margt af því á þar hús og lóðir og lögbýli og leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Enn fleira af því á rætur sínar í hreppnum í marga ættliði og miklu lengur en oddvitinn sjálfur. Þetta fólk vill sveitinni líka vel. Án þeirra væri sveitin fátækari bæði af fjármunum og hugmyndum.

Í fjórða lagi: Ef Gunnar Örn Marteinsson tekur ekki eftir áhyggjum þeirra sem eldri eru skal honum bent á að margir eldri borgarar úr sveitinni, sumt af því fólk í hárri elli, lögðu á sig að koma til fundarins í Árnesi. Það fólk vildi sýna sveitinni sinni stuðning. Honum væri sæmra að styðja við það fólk og alla þá sem verða fyrir barðinu á framkvæmdunum, hlusta á íbúana og jafnvel aðkomufólkið líka.

Virkjanirnar við Þjórsá eru alvarlegt mál fyrir marga. Þær geta kippt stoðum undan búsetu, þær geta líka fækkað frístundafólkinu.

Gunnar Örn Marteinsson oddviti mætti hafa í huga að það er fólkið en ekki Landsvirkjun sem skapar mannlífið í sveitinni. Þótt Landsvirkjun hafi gegnum árin skapað atvinnutækifæri er heildarmyndin önnur nú. Þessi áform stuðla að fækkun fólks og rýrnun lands.

Með vinsemd:

Egill Egilsson Hellholti

Guðrún Haraldsdóttir og Jón Benjamín Jónsson Haga

Guðbjörg Friðriksdóttir og Sigurður L. Einarsson í landi Haga

Jón Helgi Guðmundsson og Guðrún Ásbjörnsdóttir, Haga og Þjórsárholti

Margrét Erlendsdóttir, Hamarsheiði

Vigdís Erlendsdóttir, Hamarsheiði

Kolbrún Haraldsdóttir Stóru-Mástungu

Undirskrift:  Ragnheiður Haraldsdóttir og Haraldur Bjarnason, Stóru Mástungu

Svanborg R. Jónsdóttir Stóra-Núpi

Elín Erlingsdóttir, Sandlæk




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×