Innlent

Ýmis umferðarlagabrot á Sauðárkróki

Nærri fjörtíu ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur, og önnur umferðarlagabrot í umdæmi lögreglunnar á Sauðárkróki það sem af er helgi. Mikil umferð hefur verið um héraðið, og hefur lögregla verið með nánast samfellt eftirlit með henni. Allmargir ökukmenn hafa verið stöðvaðir til að kanna hvort þeir séu í ökufæru ástandi, en enginn hefur reynst vera undir áhrifum áfengis eða lyfja.

Lagt hefur verið hald á nokkurt magn fíkniefna. Amfetamín fannst falið í bifreið sem stöðvuð var á Þverárfjallsvegi að morgni föstudags, og á föstudagskvöld fundust 100 skammtar af LSD á farþegar í fólksflutningabíl sem áði í Varmahlíð.

Nokkur minniháttar umferðaróhöpp hafa orðið. Ekið var á fé á Öxnadalsheiði en heiðin er afréttur og ekki girt með þjóðveginum. Því er talsvert um að fé leiti í beit á vegaröxlunum.  Þá var ungur drengur fluttur á heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki eftir að hann velti fjórhjóli sínu og varð undir því. Lögregla vill minna á að til að aka torfærutæki, bifhjóli á þremur, fjórum eða fleiri hjólum þarf viðkomandi ökumaður að hafa annað hvort almenn ökuréttindi eða bifhjólaréttindi. Því þarf viðkomandi að vera orðinn sautján ára gamall.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×