Innlent

Mikið líf í mýrarboltanum á Ísafirði

Það gekk mikið á í dag á Ísafirði þegar Evrópumeistaramótið í mýrarbolta fór þar fram í ágætu veðri. Mýrarboltinn líkist knattspyrnu að flestu leyti nema hvað völlurinn er eitt drullusvað og því er oft erfitt að senda boltann milli manna.

Mörkin koma líka ekki alltaf á færibandi því boltinn fer stundum hægt í rennblautri forinni.

Áhorfendur voru fjölmargir og skemmtu sér vel yfir tilþrifunum. Á fjórða hundrað manns mættu til leiks í mýrarboltann að þessu sinni og aukast vinsældir þessarar íþróttar stöðugt hér en hún rekur uppruna sinn til Finnlands þar sem mýrarboltinn er spilaður í skógarrjóðrum.

Keppendur á Evrópumeistaramótinu í mýrarbolta komu víða að og ein helsta kempan, Mark Middleton, kom frá Skotlandi. Hann sagði að vellirnir á Ísafirði væru ekki jafnþungir og víða annars staðar en hann skemmti sér konunglega og sagði að þetta hefði verið næstum því eins og spila venjulegan fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×